
Síðustu daga hafa fimm skipverjar á frystitogaranum Blængi NK verið á námskeiði í meðferð og viðhaldi veiðarfæra hjá Hampiðjunni í Neskaupstað. Skipverjarnir eru Óðinn Freyr Björnsson, Mikael Atli Óskarsson, Sigurður Orri Sigurðsson, Ástþór Atli Einarsson og Hjörleifur Níels Gunnarsson.

Helsti leiðbeinandi á námskeiðinu var Hugi Árbjörnsson netagerðarmeistari. Í samtali við heimasíðuna sagði hann að námskeiðið gengi afar vel enda nemendurnir mjög áhugasamir og móttækilegir. “Það er í reynd farið yfir alla þætti sem menn þurfa að sinna um borð í togara eins og Blængi. Það skiptir nefnilega miklu að sem flestir í áhöfn svona skips geti bjargað málum þegar vandi kemur upp varðandi veiðarfærin. Þetta er þriggja daga námskeið og stefnt er að því að strákarnir verði hæfir til þess. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir splæsningu á vír, splæsningu á tógi – bæði fléttuðu og snúnu, unnið með hnúta, bætningu og stykkjun á neti og mælingar á neti. Þetta er býsna fjölbreytt en ég hef trú á því að námskeiðið geri menn að betri og hæfari sjómönnum. Við hér hjá Hampiðjunni höfum áður fengið menn af Gullver NS og Ljósafelli SU á svona námskeið og það gekk mjög vel,” sagði Hugi.
Í samtölum við Blængsmennina á námskeiðinu kom fram að þeir voru mjög ánægðir með það sem þeim hafði verið kennt á því. Þeir töldu sig hafa afar gott af fræðslunni og hrósuðu bæði leiðbeinendum og þeirri aðstöðu sem boðið var upp á hjá Hampiðjunni. Þeir voru á einu máli um að svona námskeið gerði þá að betri sjómönnum og að því loknu gætu þeir innt af hendi mun fleiri verkefni en áður.
Námskeiðið er hluti af fræðsluáætlun Síldarvinnslunnar sem Austurbrú utan um í samvinnu við Síldarvinnsluna.