Landað var úr frystitogaranum Blængi NK í Neskaupstað í gær að aflokinni vel heppnaðri veiðiferð. Afli skipsins var 812 tonn upp úr sjó að verðmæti 331 milljón króna. Mest var af karfa og ufsa í aflanum en einnig töluvert af þorski og ýsu. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvar veitt hefði verið. “Við vorum langmest á Vestfjarðamiðum eða á Halanum og í Víkurálnum. Túrinn var síðan kláraður fyrir austan land. Það var mest af karfa og ufsa í aflanum og það var allan tímann gott kropp í þessum tegundum. Þetta var bara fínasta nudd. Menn eru ágætlega ánægðir með túrinn enda varla annað hægt þegar komið er með fullt skip. Þetta var síðasti túr kvótaársins og ég held ég verði að segja að kvótaárið hafi gengið vel. Það er eiginlega ekki hægt annað en að vera sáttur,” segir Bjarni Ólafur.
Blængur mun halda á ný til veiða í kvöld.