
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með 1.350 tonn af síld sem fór til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Heimasíðan sló á þráðinn til Hálfdanar Hálfdanarsonar skipstjóra og spurði hvernig veiðin hefði gengið. ”Veiðin gekk vel. Aflinn fékkst í fimm holum. Lengsta holið var fjórir tímar en síðasta holið var örstutt eða innan við hálftíma. Aflinn í holi var breytilegur. Stærsta holið var 550 tonn en stutta lokaholið gaf um 70 tonn. Við vorum að veiðum sunnar en áður á vertíðinni eða í Seyðisfjarðardýpinu og Norðfjarðardýpinu. Þegar veiðum lauk vorum við 28 mílur frá landi og það tók einungis tvo og hálfan tíma að sigla til heimahafnar. Þarna suður frá fékkst stærri síld en norðar, en þó var síldin misjafnlega stór eftir holum. Það virðist vera síld víða hérna austur af landinu. Að undanförnu hefur verið veitt í Bakkaflóadýpi og í Héraðsflóadýpi en nú veiddum við semsagt mun sunnar. Lóðningarnar, sem við fundum í þessum túr, voru afar þéttar og gáfu vel. Nú líður að lokum veiða á norsk – íslenskri síld en á vertíðinni hefur töluverður hluti aflans verið íslensk sumargotssíld,” sagði Hálfdan.