Frá brunaæfingunum 2. janúar. Ljósm. Guðmundur SigfússonFöstudaginn 2. janúar fóru fram brunaæfingar um borð í uppsjávarskipunum Beiti og Berki. Æfingarnar voru framkvæmdar í samvinnu við Slökkvilið Fjarðabyggðar og er það annað árið í röð sem það er gert en um líkt leyti á síðasta ári fóru fram æfingar um borð í togurunum Barða og Bjarti. Sjómenn fá fræðslu og þjálfun í brunavörnum í Slysavarnaskóla sjómanna en einnig er mikilvægt að slík þjálfun fari fram um borð í eigin skipi. Forsvarsmenn Síldarvinnslunnar hafa lagt aukna áherslu á öryggismál og eru brunaæfingarnar um borð í skipum félagsins liður í því. Hafa þeir leitað eftir samstarfi við Slökkvilið Fjarðabyggðar sem er vel búið og skipað bæði hlutastarfandi og atvinnumönnum og hefur Slökkviliðið sýnt brunaæfingunum um borð í skipunum mikinn áhuga.

Guðmundur Sigfússon slökkviliðsstjóri er afar ánægður með áðurnefndar æfingar og segir að það skipti slökkviliðið miklu máli að fá tækifæri til að æfa slökkvistörf um borð í skipum í samvinnu við áhafnir þeirra. Með slíkum æfingum kynnist slökkviliðsmenn aðstæðum um borð í hverju skipi og þjálfist í að vinna með viðkomandi áhöfn. Farið sé yfir svonefnt neyðarplan skipsins, brunahólfun þess skoðuð og eldvarnarbúnaður og allur búnaður til slökkvistarfa yfirfarinn og prófaður. Guðmundur segir að brunar um borð í skipum séu með erfiðari verkefnum sem áhöfn og slökkvilið geti þurft að takast á við og því sé mikilvægt að æfingar fari fram svo öll viðbrögð verði skjót og fumlaus. Markmiðið með þessum æfingum er að auka þekkingu og öryggi áhafnanna og um leið að undirbúa slökkviliðið sem best ef til eldsvoða kemur um borð. Æfingar af þessu tagi eru til fyrirmyndar að mati Guðmundar og þyrftu helst að fara fram með reglubundnum hætti um borð í öllum skipum.

Heimasíðan sló á þráðinn til Tómasar Kárasonar skipstjóra á Beiti en Beitir er að kolmunnaveiðum í færeysku lögsögunni. Tómas var spurður út í brunaæfingarnar og gildi þeirra: „Brunaæfing með Slökkviliðinu er afar góð og gagnleg fyrir alla, bæði fyrir Slökkviliðið og áhöfnina. Það er afskaplega gott fyrir okkur að fá leiðbeiningar frá fagmönnum og ýmsar ábendingar þeirra eru ómetanlegar. Slökkviliðið kom líka með búnað eins og reykvél til að gera aðstæður raunverulegar. Það er almenn ánægja á meðal áhafnarinnar með þessa æfingu“. Tómas hafði orð á því að áhöfnin á Beiti hefði verið minnt á mikilvægi brunavarna í gærkvöldi þegar kviknaði í rússnesku kolmunnaskipi á miðunum skammt frá Beiti. „Það var verulegur eldur þarna um borð og hætta á ferðum en með aðstoð var unnt að slökkva eldinn í morgun og nú er verið að toga skipið til hafnar. Það er alltaf grafalvarlegt mál þegar eldur kemur upp um borð í skipi,“ sagði Tómas að lokum.