Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði. Ljósm.: Ómar Bogason.

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar á Seyðisfirði á þrijudaginn. Afli skipsins var 115 tonn, mest þorskur og ýsa. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að túrinn hafi byrjað illa en endað vel. “Við reyndum ýmislegt í þessari veiðiferð með misjöfnum árangri. Við byrjuðum á að fara suður á Stokksnesgrunn að leita að ufsa og karfa en þar var hreint út sagt ekkert að hafa. Síðan var farið á Lónsbugt og Lónsdýpi og einnig á Papagrunn og það var nánast sama sagan. Þetta leiddi til þess að fyrsti eini og hálfi sólarhringurinn skilaði afskaplega litlu. Þá tókum við hol á Örvæntingarhorni og þar fékkst þorskur en hann var ekki góður og því var ekki lengur verið þar. Að þessu loknu var haldið á Skrúðsgrunn og þar fengum við ýsu. Leiðin lá síðan á Tangaflakið þar sem stutt var stoppað áður en farið var í Héraðsflóann og á Glettinganesflakið. Þar var síðan restað í ýsu og þorski. Það var kaldafýla allan túrinn en engin ástæða til að kvarta mikið yfir veðrinu. Eins og sést á framansögðu var ýmislegt reynt í þessum túr og þegar upp var staðið var hann bara ásættanlegur og við komum með fullt skip að landi,” segir Þórhallur.

Gullver hélt á ný til veiða eftir hádegi í gær.