Ýsan er hálferfið núna. Ljósm. Guðmundur Alfreðsson

Ísfisktogarinn Bergey VE landaði í Eyjum í gærkvöldi. Aflinn var 64 tonn, mest þorskur og ýsa. Jón Valgeirsson skipstjóri segir að þetta hafi ekki verið nein frægðarför en þó sé allt í lagi og engin ástæða til að kvarta mikið. ”Við vorum mest á Hvalbakssvæðinu en restuðum á Víkinni. Það var norðan eða norðaustan kaldadrulla mestallan túrinn. Við vildum leggja áherslu á ýsu að þessu sinni en hún er sannast sagna hálferfið núna. Hún kemur á endanum, lætur líklega sjá sig þegar síldin hrygnir. Það er venjulega þannig. Við munum halda til veiða á ný í kvöld og líklega verður farið eitthvað austureftir. Við sjáum til hvernig gengur,” sagði Jón.