Verið er að landa úr frystitogaranum Blængi NK í Neskaupstað í dag. Aflinn er um 630 tonn og verðmæti hans um 413 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort menn væru ekki ánægðir með túrinn. ”Jú, það er ekki hægt annað. Þetta var hefðbundinn fjögurra vikna túr hjá okkur og veiðin var góð og jöfn allan tímann. Við fórum hringinn í kringum landið í túrnum en mest var veitt á Vestfjarðamiðum og úti fyrir suðaustanverðu landinu. Fyrir vestan fékkst helst ýsa og karfi en það var einkum ýsa austurfrá. Auk þess er þorskur, ufsi og grálúða í aflanum. Það var ekta sumarveður allan túrinn, alltaf renniblíða. Menn verða að vera ánægðir með túr eins og þennan og þetta er bara enn einn góði túrinn hjá Blængi,” sagði Bjarni Ólafur.
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða annað kvöld. Þá verður haldið í þriggja vikna túr en að honum loknum er slippur á dagskrá.