Börkur NK og Beitir NK að makrílveiðum. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Börkur NK kom til löndunar í Neskaupstað snemma í morgun með um 1.000 tonn af makríl. Þá var nýlokið við að vinna tæp 1.800 tonn úr Vilhelm Þorsteinssyni EA. Heimasíðan heyrði í Hálfdani Hálfdanarsyni skipstjóra á Berki og spurði hann fyrst hvar aflinn hefði fengist. “Aflinn fékkst í íslensku lögsögunni og við vorum um 150 mílur frá landinu þegar lagt var af stað til löndunar. Skipin eru hægt og bítandi að færa sig lengra og lengra í norðaustur og nú undir lokin vorum við alveg við Smugulínuna. Fiskurinn sem við erum með er góður og nú undir lokin var minni áta í honum en verið hefur. Það er staðreynd að fiskurinn batnar alltaf þegar líður á vertíðina. Veiðisamstarfið gengur vel hjá okkur en það eru fimm skip í samstarfi. Þetta samstarf er skynsamlegt í alla staði við þær aðstæður sem ríkja við makrílveiðarnar. Mér líst þokkalega á framhaldið. Vinnslunni er haldið gangandi og það er það sem skiptir máli. Við vorum stoppaðir af við veiðarnar núna vegna þess að það var komið að þrifum í fiskiðjuverinu, en það er reglulega þrifið hátt og lágt. Gera má ráð fyrir að vinnslu á þessum 1.000 tonnum ljúki um hádegi á morgun og þá hefjast þrifin,” segir Hálfdan.