![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/12/Siggi-mynd-1.jpg)
Í byrjun desember kom Beitir NK til hafnar í Neskaupstað með rúmlega 1.000 tonn af íslenskri sumargotssíld sem fékkst vestur af landinu. Túrinn var einn af mörgum góðum hjá þessu aflaskipi en hann markaði tímamót að því leyti að þetta var síðasti túr Sigurðar Valgeirs Jóhannessonar sem var skipstjóri í veiðiferðinni. Sigurður hefur látið af störfum einungis 61 árs að aldri eftir að hafa starfað hjá Síldarvinnslunni í ein 37 ár. Heimasíðan hitti Sigurð að máli meðal annars til að fræðast um sjómannsferilinn og til að spyrja hvers vegna hann lætur af störfum ekki eldri en hann er.
Hvenær ákvaðst þú að verða sjómaður?
Ég er fæddur og alinn upp á Fáskrúðsfirði og heillaðist snemma af sjómennsku. Ég var einungis níu ára gamall þegar ég byrjaði að leggja rauðmaganet og selja aflann. Strax þarna varð ég hugfanginn af veiðum og af öllu því sem tengdist sjávarútvegi. Ég byrjaði að róa á trillu fjórtán ára og sextán ára fór ég á mína fyrstu vertíð. Að því kom árið 1981 að ég hóf nám í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað og þar kynntist ég konunni minni, Herborgu Þóru Ármannsdóttur. Ég fór svo fljótlega að róa með tengdapabba, Ármanni Herbertssyni. Þarna er komin skýringin á því að ég bý í Neskaupstað og hef mest verið á skipum þaðan en lengi sá ég fyrir mér að ég yrði á sjó á Fáskrúðsfirði. Að því kom að ég fór í Stýrimannaskólann og lauk námi þar árið 1987.
Hvenær hófst þú störf hjá Síldarvinnslunni?
![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/12/Siggi-mynd-2.jpg)
Þegar ég hafði lokið Stýrimannaskólanum fór ég á Hafnarey frá Breiðdalsvík. Ég var búinn að vera á Hafnareynni í stuttan tíma þegar hringt var í konuna mína og mér boðið pláss á Beiti. Það er örugglega svolítið sérstakt að hringt sé í konuna til að að bjóða kallinum hennar starf. Þegar starfstilboðið kom var bent á að ég myndi ná loðnuvertíð en annars var verið að byrja að vinna bolfiskafla um borð í Beiti á þessum tíma en sú vinna þótti erfið. Ég var upphaflega ráðinn á Beiti sem háseti og leysti af sem annar stýrimaður. Ég varð ekki fyrsti stýrimaður fyrr en á árinu 2007. Ég hef lengst af verið stýrimaður en leyst af sem skipstjóri, einkum fjögur eða fimm síðustu árin.
Það hefur verið góð og fjölþætt reynsla að vera á gamla Beiti?
![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/12/Siggi-mynd-3.jpg)
Já, svo sannarlega. Ég var á gamla Beiti í 19 ár með Sigurjóni Valdimarssyni skipstjóra. Sigurjón var einstakur maður og margt hægt af honum að læra. Sama á við um Sigurberg Hauksson sem oft var með skipið. Það var ýmislegt reynt til að nýta Beiti sem best og sífellt verið að gera breytingar um borð enda skipið oft nefnt Breytir í gríni. Beitir var á nótaveiðum, en veiddi einnig bæði í botntroll og flottroll. Bolfiskafli var saltaður um borð og einnig frystur. Þá var einnig veidd rækja og hún fryst. Um tíma var skipið notað til loðnuflokkunar. Þá var loðnan veidd og flokkuð um borð, flokkaðri loðnu síðan dælt um borð í frystiskip og því sem flokkaðist frá um borð í skip sem fluttu þann hluta aflans til vinnslu í loðnuverksmiðjum. Eftir drjúgt hlé á kolmunnaveiðum var það Beitir sem innleiddi þær veiðar á ný árið 1995. Ég man eftir fyrsta kolmunnatúrnum í Rósagarðinn, en við fengum 300 tonn í honum. Á þessum árum stóð loðnan oft óvenju djúpt og erfitt að veiða hana í nót en þá hóf Beitir loðnuveiðar í flottroll. Þetta var einmitt árið 1995. Fljótlega hófu fleiri skip loðnuveiðar í flottroll og ég man til dæmis eftir janúarmánuði 1996 en þá veiddist engin loðna í nót á meðan vel aflaðist í trollið. Það má með sanni segja að Beitir hafi rutt brautina á ýmsum sviðum og ég efast um að nokkurt skip í íslenska fiskiskipaflotanum hafi sinnt jafnfjölbreyttum verkefnum og gamli Beitir.
Hvert lá leiðin þegar gamli Beitir var seldur árið 2007?
Þá var ég á Súlunni um tíma, fór síðan á Bjart og var þar í ein tvö ár. Þá lá leiðin á gamla Börk og þar var ég einnig í ein tvö ár. Síðan fer ég á nýjan Beiti árið 2011 og var eftir það alltaf á skipum sem báru Beitisnafnið Á þeim tíma sem ég hef verið á sjó hafa skipin tekið stórkostlegum breytingum. Að bera saman gamla Beiti og núverandi Beiti er nánast eins og að bera saman nótt og dag. Breytingin felst í nánast öllu; vinnuaðstæðum, tækjabúnaði og aðbúnaði áhafnar. Þá hefur vinnufyrirkomulag tekið stakkaskiptum og á skipum eins og núverandi Beiti eru tvær áhafnir þannig að sjómenn eiga möguleika á að sinna áhugamálum og lifa fjölskyldulífi í miklu ríkari mæli en áður var hægt.
Hefur ekki fleira breyst?
![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/12/Siggi-mynd-4.jpg)
Ljósm. Guadalupe Laiz
Jú, svo sannarlega. Það hafa orðið miklar breytingar hjá uppsjávarskipum eins og Beiti. Tilkoma makrílsins hefur auðvitað breytt miklu og að norsk – íslenska síldin skuli veiðast hér út af Austurlandi á ný er stórkostlegt. Nú eru uppsjávarskipin í heilsársprógrammi – það er loðna, síld, makríll og kolmunni. Auðvitað hefur loðnan verið að stríða okkur og makríllinn verið heldur erfiðari en hann var en það er bara einkenni uppsjávarfiska að vera svolítið stríðnir. Það er miklu fleira sem hefur breyst. Nú fer aflinn að langmestu leyti til manneldisvinnslu en áður tóku bræðslurnar á móti mestum hluta aflans. Kolmunninn er að vísu undantekning í þessu sambandi. Skipin koma með aflann kældan að landi og hann er miklu ferskari og betri heldur en áður. Ég vil nefna tvennt til viðbótar sem hefur breyst. Umgengni við auðlindina, fiskinn, hefur tekið stakkaskiptum. Nú er allt sem kemur í veiðarfærð hirt en það var ekki þannig á fyrri tíð. Hitt sem ég vil nefna eru öryggismálin. Þeim er sinnt af mikilli alvöru en svo var ekki áður. Þegar byrjað var að leggja áherslu á öryggismálin mætti það stundum litlum skilningi en nú er öldin önnur og menn kunna svo sannarlega að meta hvernig að þeim er staðið.
Eru ekki margir skipsfélagar eftirminnilegir?
![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/12/Siggi-mynd-5.jpg)
Ég hef verið á sjó með mörgum snillingum og mun aldrei gleyma þeim. Til dæmis eru á Beiti núna hörkumenn um borð í öllum stöðum. Þeir eru bæði duglegir og afar flinkir. Ég hrósa happi yfir einu; ég hef aldrei verið á skipi þar sem ríkt hefur leiðindamórall. Þvert á móti hafa öll samskipti og allt samstarf um borð einkennst af jákvæðni. Í þessu sambandi vil ég segja að ég hef áhyggjur af nýliðun í sjávarútvegi. Ungir menn hafa takmarkaða möguleika á að hefja sjómennsku og hér á landi er ekki unnt að læra sjómennsku almennt eins og er til dæmis hægt í Noregi. Þetta nám í Noregi gengur undir nafninu ungmennaveiðar og ég held að við ættum að skoða það virkilega vel að stofna til sambærilegs náms hér á landi.
Af hverju í ósköpunum ertu að hætta til sjós einungis 61 árs að aldri?
Er þetta ekki bara orðið gott? Ég sagði lengi að ég ætlaði að hætta sextugur. Nú er ég orðinn sextíu og eins. Ég hef verið meira og minna á sjó frá 1978 og ég held að sé nóg komið. Nú ætla ég að fara að leika mér og sinna ýmsu sem ég hef gaman af en hef takmarkað getað sinnt til þessa. Ég hef undanfarin ár verið í grenjavinnslu á Barðsnesi og í Sandvík og nú ætla ég að hyggja að refnum af meiri alvöru. Ég hef líka sinnt trjárækt og það er mjög gefandi. Ég hef ræktað bæðu reyni og birki af fræjum og á orðið góðan lund hér uppi í fjalli. Nú get ég fengist við tráræktina af meiri alvöru en áður Svo vil ég nefna kartöfluræktina. Nú ætla ég að fara að fást við kartöflurækt af meiri metnaði en áður ásamt Óla Gunnari vini mínum. Kartöflurækt er alveg sérstakt áhugamál hjá okkur. Þá ætla ég að ferðast með konunni minni og ég veit að við munum njóta þess vel. Ef skemmtileg verkefni tengd sjónum bjóðast þá er ég alveg tilbúinn að kíkja á þau tímabundið en föstu starfi á sjónum er lokið hjá mér.