
Ljósm. Kristinn Arnberg Kristinsson
Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK hefur fiskað vel á línuna að undanförnu. Í austanáttinni, sem hefur verið ríkjandi að undanförnu, hefur báturinn róið frá Sandgerði og hefur aflanum verið ekið þaðan til Grindavíkur þar sem hann hefur verið unninn í vinnslustöðvum Vísis.
Tvær áhafnir eru á Fjölni og eru fjórir í hvorri. Áhafnirnar skiptast á að róa í hálfan mánuð í senn. Heimasíðan heyrði hljóðið í skipstjórunum, þeim Júlíusi Magnúsi Sigurðssyni og Kristni Arnberg Kristinssyni. Júlíus hafði farið sinn síðasta róður í bili sl. þriðjudag og var býsna ánægður með aflabrögðin. “Þennan síðasta hálfa mánuð sem við rerum fórum við átta róðra og aflinn var samtals 118 tonn. Við fórum einungis einn róður í fyrri vikunni vegna veðurs en sjö í þeirri síðari. Þegar hægt er að róa gengur yfirleitt vel hjá okkur en við erum mjög háðir veðri. Við þurfum yfirleitt ekki að sigla nema í klukkutíma eða svo til að geta lagt línuna og reyndar oft ekki nema hálftíma. Að undanförnu hefur afli verið mjög góður og við getum ekki annað en verið ánægðir,” sagði Júlíus.
Þegar rætt var við Kristinn Arnberg í gær voru þeir á Fjölni að draga línuna. “Við erum í okkar öðrum róðri núna og það er ekki hægt að kvarta. Staðreyndin er sú að það er hörkufiskirí. Við vorum með 13 tonn í fyrsta róðrinum. Róðurinn núna byrjaði dálítið rólega en það hefur svo sannarlega ræst úr þessu. Við erum að fá ofboðslega fallegan fisk og hann er örugglega gott hráefni fyrir vinnsluna. Bátar hér hafa eitthvað orðið varir við loðnu síðustu dagana,” sagði Kristinn.