Fjölnir GK að veiðum. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Krókaaflamarksbátur Vísis, Fjölnir GK, hefur róið með línu frá Skagaströnd sl. tvo mánuði. Á bátnum eru fjórir í áhöfn hverju sinni en áhafnirnar eru tvær. Reglan er sú að skipt er um áhöfn á tveggja vikna fresti. Afli Fjölnis er fluttur suður til Grindavíkur og unnin í fiskvinnsluhúsum Vísis þar. Heimasíðan sló á þráðinn til Júlíusar Magnúsar Sigurðssonar skipstjóra og spjallaði við hann í gær á meðan línan var dregin. Magnús sagði að útgerðin frá Skagaströnd hefði gengið vel; fínasta kropp hefði verið og veðrið tiltölulega hagstætt þannig að frátafir hefðu ekki verið miklar. ”Við komum hingað norður um 20. ágúst og þetta hefur bara gengið vel. Veiðin hefur að vísu verið upp og niður en yfirleitt hefur þetta verið þokkalegt. Við erum að nálgast 300 tonn á þessum tveimur mánuðum og rétt tæplega helmingur aflans hefur verið ýsa. Við höfum reynt að fá sem mest af ýsunni og það hefur gengið betur hér en víða annars staðar. Það hefur alltaf verið kropp í hverjum róðri og ekki óalgengt að við höfum verið að koma að landi með um 7 tonn. Við reiknum jafnvel með að róa héðan frá Skagaströnd fram í nóvember og halda þá heim til Grindavíkur en auðvitað mun veðrið ráða því hvenær að því kemur,” sagði Júlíus.