Það var mannmargt hjá Síldarvinnslunni á Tæknideginum.
Ljósm. Húnbogi Sólon Gunnþórsson

Tæknidagur fjölskyldunnar var haldinn í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað í tíunda sinn sl. laugardag. Tókst dagurinn vel í alla staði og var mjög fjölsóttur. Á Tæknideginum var boðið upp á ýmislegt forvitnilegt fyrir alla aldurshópa og kynntu meðal annars mörg fyrirtæki starfsemi sína. Verkmenntaskóli Austurlands kynnir ávallt sína starfsemi á deginum og þá gefst gestum kostur á að skoða þá námsaðstöðu og þann fjölbreytta tækjabúnað sem honum tilheyrir.

Síldarvinnslan tók að sjálfsögðu þátt í Tæknideginum og kynnti þar starfsemi sína. Þá bauð fyrirtækið upp á fjölbreyttar kræsingar úr hafinu og virtust þær líka afar vel.

Verkmenntaskóli Austurlands á lof skilið fyrir Tæknidaginn. Á deginum getur fólk kynnst hinu fjölbreytta námi sem boðið er upp á og einnig mikilvægum þáttum austfirsks atvinnulífs. Þá er á deginum ávallt fitjað upp á einhverju forvitnilegu og fróðlegu sem vekur bæði ánægju og undrun. Það má alveg halda því fram að Tæknidagurinn sé virkilega spennandi árlegur viðburður.