Fólk flykktist um borð í skip Síldarvinnslunnar sem tóku að sjálfsögðu þátt í hópsiglingunni. Öll börn fengu afhent björgunarvesti á bryggjunni.
Ljósm. Smári Geirsson

Nú er sjómannadagshelgin liðin og vonandi eiga sem flestir góðar minningar frá helginni. Í mörgum sjávarplássum er veglega haldið upp á sjómannadaginn og oft er sjómannadagurinn einn ekki látinn duga heldur er vegleg hátíðardagskrá einnig næstu daga á undan. Í Neskaupstað hófust hátíðarhöldin á miðvikudag og þeim lauk aðfaranótt mánudagsins. Dagskráin var fjölbreytt og voru atriðin bæði hefðbundin og ný af nálinni. Það er mikil vinna að skipuleggja hátíð sem þessa og á sjómannadagsráð heiður skilið fyrir það. Liður í hátíðarhöldunum var fyrsti knattspyrnuleikurinn á nýjum SÚN-velli og vígsla á glæsilegri viðbyggingu við stofnanaklasann Múlann. Börnin tóku til dæmis þátt í dorgveiðikeppni og dönsuðu á krakkaballi og hinir fullorðnu sóttu tónleika og dansleiki og margir tóku þátt í sjómannadagsgolfmóti. Þá var hátíðarmessa í Norðfjarðarkirkju þar sem tvær sjómannskonur, þær Guðný Jónsdóttir og Jóhanna Axelsdóttir, voru heiðraðar. Hátíðardagskrá við sundlaugina var samkvæmt hefð og auðvitað fór fram hópsigling norðfirska flotans og kappróður. Fólk þyrptist um borð í skipin áður en lagt var af stað í siglinguna og nutu allir frábærrar landsýnar þegar siglt var út fyrir Norðfjarðarhorn. Um borð í skipunum var fólk á öllum aldri og börnin klæddust björgunarvestum áður en lagt var úr höfn. Margt aðkomufólk sótti hátíðarhöldin í Neskaupstað og þó nokkur fermingabarnamót voru haldin í bænum þessa helgi.

Menn nutu hópsiglingarinnar og fóru Síldarvinnsluskipin út fyrir Norðfjarðarhorn þar sem landsýn er einstaklega falleg og tilkomumikil. Á myndinni sigla skipin inn Norðfjörð. Ljóm. Guðlaugur Björn Birgisson

Um sjómannadagshelgina fór fram kaffisala björgunarsveitarinnar Gerpis samkvæmt hefð og eins bauð Síldarvinnslan öllum sem vildu upp á fisk og franskar í Beituskúrnum og voru þar afgreiddir á sjöunda hundrað máltíðir að lokinni hópsiglingu.

Það verður vart annað sagt en að sjómannadagshátíðarhöldin í Neskaupstað hafi heppnast eins og best verður á kosið þetta árið.

Fólk á öllum aldri naut hópsiglingarinnar. Elsti gesturinn um borð í Berki NK var án efa Sigrún Kristín
Þorsteinsdóttir en hún er 91 árs að aldri. Ljósm. Smári Geirsson
Sjómannskonurnar Jóhanna Axelsdóttir og Guðný Jónsdóttir voru heiðraðar í sjómannamessu í Norðfjarðarkirkju. Ljósm. Þuríður Jónsdóttir
Síldarvinnslan bauð öllum sem vildu upp á fisk og franskar í Beituskúrnum að lokinni hópsiglingu. Þar var margt um manninn. Ljósm. Smári Geirsson