Í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað hefur verið nánast samfelld makrílvinnsla frá því í byrjun júlímánaðar. Makríllinn er unnin allan sólarhringinn á þrískiptum vöktum. Á hverri vakt eru 24 starfsmenn en auk þeirra eru verkstjórar og vélgæslumenn að störfum. Heimasíðan ræddi við Odd Einarsson yfirverkstjóra og spurði fyrst hvernig hráefnið væri. “Við höfum mest verið að vinna makríl sem veiðist innan íslenskrar lögsögu. Það er stór og fallegur makríll og mun stærri en sá makríll sem veiðist í Smugunni. Fiskurinn sem veiðist í íslensku lögsögunni er um og yfir 600 grömm og fer megnið af honum í stærstu flokkana sem framleiddir eru. Í morgun var lokið við að vinna úr Berki og fiskurinn úr honum var einkar fallegur. Síðan kom Margrét í morgun og hún færir okkur einnig stóran fisk úr íslensku lögsögunni. Makríllinn er ýmist heilfrystur, hausaður eða flakaður og nú hefur verið tekið á móti um 26.000 tonnum til vinnslu í fiskiðjuverinu á vertíðinni. Öll áhersla er lögð á manneldisframleiðslu hér hjá Síldarvinnslunni og það gengur vel. Við höfum hér frábært starfsfólk sem stendur sig vel að öllu leyti og að sjálfsögðu skiptir það öllu máli. Nú hafa skipin verið að leita í íslensku lögsögunni og úti í Smugunni og óvíst hvaðan aflinn kemur sem þau flytja næst að landi,” segir Oddur.