Sl. vor var gerð fræðsluáætlun fyrir sjómenn á skipum Síldarvinnslunnar í samvinnu við Austurbrú. Fræðsluþörf sjómannanna var metin og um þessar mundir er verið að undirbúa fyrstu námskeiðin. Það er Austurbrú sem annast framkvæmd námskeiðanna í samvinnu við starfsmannastjóra Síldarvinnslunnar.
Boðið verður upp á þrjú námskeið í þessum mánuði og eru þau eftirtalin:
Mánudagur 18. nóvember. Námskeið um jákvæð samskipti. Fyrst verður boðið upp á námskeiðið á Seyðisfirði fyrir áhöfn Gullvers NS. Síðar sama dag verður boðið upp á námskeiðið í Neskaupstað. Leiðbeinandi á námskeiðinu verður Eyþór Eðvarðsson.
Miðvikudagur 20. nóvember. Námskeið fyrir kokka um örugga og rétta meðhöndlun matvæla. Síðasti skráningardagur er 17. nóvemnber. Þetta námskeið verður haldið á netinu (Teams) og er það Sýni sem annast framkvæmd þess.
Fimmtudagur 21. nóvember. Námskeið í kælitækni fyrir vélstjóra. Síðasti skráningardagur er 15. nóvember. Á námskeiðinu verður farið yfir grundvallaratriði ammoníakskerfis og það skoðað lið fyrir lið. Námskeiðið verður haldið í Neskaupstað.
Fleiri námskeið fyrir sjómenn eru á undirbúningsstigi og má þar til dæmis nefna námskeið í netagerð og Baader – námskeið.
Hákon Ernuson starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar segist vera mjög ánægður með að fræðslumálin innan fyrirtækisins séu tekin föstum tökum. Hann segir að fyrsta skrefið sé að hrinda í framkvæmd fræðsluáætlun fyrir sjómenn en síðan sé fyrirhugað að gera sambærilega áætlun fyrir fólkið sem starfar í landi. Um þessar mundir er unnið að þarfagreiningu fyrir fólkið í landi og í kjölfarið mun einnig hefjast námskeiðshald fyrir það.