Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte hefur reiknað út svonefnt skattaspor Síldarvinnslusamstæðunnar fyrir árin 2013 og 2014. Skattaspor er tiltekin aðferðafræði sem notuð er til að greina heildarframlag fyrirtækja til samfélagsins í formi skatta og opinberra gjalda. Til Síldarvinnslusamstæðunnar  teljast auk móðurfélagsins Síldarvinnslunnar hf., Gullberg ehf., Bergur-Huginn ehf., Fóðurmjölsverksmiðjan Laxá og SVN-eignafélag ehf.  

Hér á eftir verða birtar nokkrar athyglisverðar niðurstöður skattasporsins:

  • Verðmætasköpun Síldarvinnslusamstæðunnar nam rúmum 23 milljörðum króna árið 2014 og fjöldi ársverka var 288.

  • Rekstrarkostnaður fyrir utan laun og skatta á árinu 2014 nam tæpum 10 milljörðum króna og er stór hluti kostnaðarins vegna kaupa á vörum og þjónustu frá öðrum innlendum fyrirtækjum.

  • Launagreiðslur námu 14,3% af verðmætasköpun ársins 2014.

  • Meðaltal heildarlauna starfsmanna á árinu 2014 var 12 milljónir króna.

  • Skattaspor samstæðunnar var 1,6 milljón krónur á mánuði fyrir hvern starfsmann árið 2014 og 1,9 milljón krónur á mánuði 2013. Skattasporið nam því samanlagt 42 milljónum króna fyrir hvern starfsmann á árunum 2014 og 2013.

  • Skattasporið nam 104 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. af veiðiheimildum ársins 2014 og 154 krónum fyrir hvert þorskígildiskg. ársins 2013.

  • Veiðigjöld námu 909 milljónum króna árið 2014 og 954 milljónum árið 2013.

  • Veiðigjöldin sem hlutfall af heildarskattaspori námu tæplega 20% árið 2014 og um 18% árið 2013.

  • Samanlagt námu greiddir og innheimtir skattar ásamt opinberum gjöldum samstæðunnar 4,6 milljörðum króna árið 2014 og 5,2 milljörðum króna árið 2013. Samanlagt nam því framlag samstæðunnar til samfélagsins 9,8 milljörðum króna í formi skatta og opinberra gjalda á árunum 2013 og 2014.

  2014

 2013