LungA – hátíðin á Seyðisfirði var haldin í síðasta sinn nú nýverið en hátíðin var fyrst haldin árið 2000. Að venju var hátíðin vel sótt og var dagskrá hennar fjölbreytt. Frystihúsið í bænum kom að góðum notum á hátíðinni en vinnslu í því var hætt í lok marsmánaðar sl. Síldarvinnslan er eigandi hússins og þótti sjálfsagt að nýta það á hátíðinni eins og frekast var kostur. Ómar Bogason hefur umsjón með frystihúsinu og sagði hann að það hefði verið einstaklega
ánægjulegt að sjá það koma í góðar þarfir á hátíðinni og fyllast af ungu og lífsglöðu fólki. “Það lifnaði svo sannarlega yfir frystihúsinu á LungA – listahátíðinni sem haldin var dagana 15. – 21. júlí sl. Húsið gegndi skemmtilegu hlutverki í listasmiðjunum sem þá voru í gangi. Í húsið kom unga fólkið ásamt leiðbeinendum og taktföst hljómlistin hljómaði um allt hús. Femíniskt Reif – smiðajan var meðal annars í húsinu við listsköpun og æfingar og í lok hátíðarinnar var efnt til sýninga á neðstu hæð hússins og einnig á bryggjunni framan við það. Fjölmenni sótti sýningarnar og naut afrakstursins af vinnu unga fólksins,” sagði Ómar.
Tekið skal fram að nefnd skipuð fulltrúum Múlaþings, Austurbrúar og Síldarvinnslunnar hefur skilað af sér tillögu um framtíðarnýtingu frystihússins og er unnið með þá tillögu um þessar mundir.