Ísfisktogarinn Vestmannaey VE landaði fullfermi af karfa í Eyjum sl. sunnudag. Í morgun landaði skipið síðan nær fullfermi af ýsu og þorski. Heimasíðan ræddi við Birgi Þór Sverrisson skipstjóra og spurði fyrst hvernig karfatúrinn hefði gengið. “Hann gekk býsna vel. Við fengum karfann að mestu í Skerjadýpinu og það gekk vel að veiða. Þetta var hinn fallegasti karfi sem fór beint í útflutning til Þýskalands og Frakklands. Við héldum til veiða á ný strax að löndun lokinni og þá var haldið austureftir. Við tókum eitt hol á Pétursey en síðan var farið á Papagrunn. Þar fengum við ýsu en fljótlega brældi og þá var haldið á Höfðann þar sem fékkst þorskur. Það voru ansi mikil stím í veiðiferðinni og þau eru tímafrek. Komið var til hafnar eldsnemma í morgun og hófst löndun klukkan sex. Við förum út á ný í kvöld og ég reikna með að þá verði farið í svipaðan túr og þann síðasta,” segir Birgir Þór.