Kolmunna landað úr Barði NK á laugardaginn. Ljósm. Smári Geirsson

Barði NK kom til Neskaupstaðar eldsnemma á laugardagsmorgun með fullfermi af kolmunna. Skipstjóri í túrnum var Theodór Haraldsson og var þetta fyrsta veiðiferð hans í skipstjórastóli á uppsjávarveiðiskipi en hann er margreyndur togaraskipstjóri. Heimasíðan sló á þráðinn til Theodórs og spurði hvernig þessi fyrsti kolmunnatúr Síldarvinnsluskips í haust hefði gengið. “Þetta gekk bara þokkalega. Við vorum í um það bil viku á veiðum. Aflinn, sem var 2.050 tonn eða fullfermi, fékkst í sjö holum. Aflinn var frá 180 tonnum og upp í 340 tonn í holi en dregið var í 12 til 16 tíma. Það var fínasta veður þar til í lokin en þá brældi. Við vorum að veiðum í Rósagarðinum en mikilvægt er að ná í kolmunna innan íslensku lögsögunnar. Það voru upp í níu skip að veiðum þarna, fimm íslensk og fjögur færeysk. Þegar leið á túrinn urðum við sífellt varir við meira af fiski og aflinn jókst í samræmi við það. Þetta lítur bara ágætlega út,” segir Theodór.

Að löndun lokinni hélt Barði til síldveiða en Beitir NK mun hins vegar halda til kolmunnaveiða.