Barði NK í höfn í Neskaupstað. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

Veiðar Síldarvinnsluskipa á íslenskri sumargotssíld eru hafnar. Það var Barði NK sem hóf veiðarnar og kom hann til Neskaupstaðar með 1050 tonn í gærkvöldi. Theodór Haraldsson, skipstjóri á Barða, var ánægður með veiðiferðina en sagði að nokkur tími hefði farið í að að leita uppi síldina. “Við byrjuðum á að leita út af Faxaflóa og síðan var leitað alveg norður á Hala en síldarfréttir höfðu borist þaðan. Á Halanum fannst ekkert og því var haldið til baka. Síldin fannst síðan í Jökuldýpinu og segja má að það sé hefðbundinn staður. Veiðin gekk vel. Við fengum aflann í þremur hölum og dregið var í 2-4 tíma í hverju þeirra. Í fyrsta holinu fengust 400 tonn, 80 fengust í öðru og 550 í því þriðja. Það var blíðuveður allan túrinn og segja má að síldin sem fékkst sé dæmigerð íslensk sumargotssíld, rétt undir 300 grömmum að þyngd. Ég held að menn séu ánægðir með upphaf þessarar vertíðar og nú er árshátíðarferð til Póllands framundan,” sagði Theodór.

Beitir NK lét úr höfn í Neskaupstað í gær og var honum siglt til Hafnarfjarðar. Að sögn Grétars Arnar Sigfinnssonar, rekstrarstjóra útgerðar Síldarvinnslunnar, mun skipið liggja þar og verður haldið þaðan til síldveiða að lokinni árshátíðarferðinni.

Geir Sigurpáll Hlöðversson, rekstrarstjóri fiskiðjuversins í Neskaupstað, segir að síldin úr Barða komi vel út. ”Þetta er fallegasta síld en hún er heldur smærri en norsk – íslenska síldin eins og eðlilegt er. Vinnslan á síldinni Í fiskiðjuverinu gengur vel en verið er að framleiða samflök og roðlaus flök,” sagði Geir Sigurpáll.