![](https://svn.is/wp-content/uploads/2024/03/VES-londun-mars-2024-AR.jpg)
Ljósm. Arnar Richardsson
Ísfisktogarinn Bergur VE landaði fullfermi í heimahöfn sl. mánudag og í kjölfar hans kom Vestmannaey VE einnig með fullfermi og landaði í gær. Afli skipanna var að mestu þorskur og ýsa. Heimasíðan sló á þráðinn til skipstjóranna og spurði frétta af veiðum. Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergi, sagði að rólegt hefði verið framan af túrnum. “Við byrjuðum á Pétursey og Vík. Síðan var haldið á Ingólfshöfðann. Þarna var ósköp rólegt og lítið að hafa. Þá færðum við okkur austar og byrjuðum í Hvalbakshallinu. Þar fékkst þorskur yfir nóttina og ýsa á 90 – 100 föðmum. Þarna vorum við í sólarhring en þá var það búið. Við drógum Hvalbakshallið norðureftir og fengum þorsk Utanfótar. Síðan var kastað í Litladýpi og haldið suðureftir. Þetta var ekki langur túr eða rúmir fjórir sólarhringar. Tveir sólarhringar fóru í stím og í rúma tvo vorum við að veiðum. Veðrið versnaði töluvert undir lok túrsins en þá var kominn norðan fræsingur,” sagði Ragnar.
Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, hafði svipaða sögu að segja og Ragnar. “Við byrjuðum túrinn á Höfðanum og tókum þar tvö hol en það kom lítið út úr því. Þá var haldið austur á bóginn og veitt í Hvalbakshallinu, á Breiðdalsgrunni og í Berufjarðarál. Túrinn var síðan kláraður í Skarðsfjörunni. Veðurfarslega sluppum við þokkalega í þessum túr og það eru allir kátir um borð á þessu nýbyrjaða ári,” sagði Birgir Þór.