
Ísfisktogarinn Gullver NS er að landa í heimahöfn á Seyðisfirði í dag. Afli skipsins er 80 tonn, 58 tonn þorskur og tæplega 20 tonn ýsa. Skipstjóri í veiðiferðinni var Valgarður Freyr Gestsson og var þetta hans fyrsti túr í skipstjórastólnum, en hann hefur verið fyrsti stýrimaður á skipinu um tveggja ára skeið. Heimasíðan ræddi við Valgarð í morgun og spurði hvernig túrinn hefði gengið. ”Túrinn gekk vel að öðru leyti en því að okkur gekk fremur illa að finna ýsuna sem við vildum leggja áherslu á að veiða. Við byrjuðum á Tangaflaki og síðan var haldið á Gletting en ýsuveiðin var takmörkuð þar. Þá var siglt norður á Digranesflak og þar tekin þrjú hol en aflinn var að mestu þorskur á þeim slóðum. Þá var haldið suður eftir í ýsuleit og byrjað á Gerpisflaki og endað á Gauraslóð með heldur litlum árangri. Ýsan reynist okkur og öðrum erfið um þessar mundir. Það er almennt kvartað undan ýsuveiðinni. Þetta var minn fyrsti túr sem skipstjóri og það er auðvelt að vera skipstjóri á skipi þar sem er samheldin og góð áhöfn. Á Gullver er flottur mannskapur. Að löndun lokinni verður haldið til Neskaupstaðar þar sem nokkrum viðhaldsverkefnum verður sinnt, meðal annars þurfum við á þjónustu Hampiðjunnar að halda vegna togvíra. Síðan er gert ráð fyrir að skipið haldi á ný til veiða á fimmtudagskvöld,” sagði Valgarður.
