Víkingur Trausti Elíasson er uppalinn á Reyðarfirði þar sem hann ákvað ungur að aldri að verða vélstjóri þegar hann yrði stór. Eftir grunnskóla hóf hann nám í Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað, en eftir eitt ár þar fór hann til náms í Verkmenntaskólann á Akureyri og þaðan útskrifaðist hann sem vélstjóri og rafvirki árið 2012. Í kjölfarið lauk hann síðan meistaranámi. Leið hins unga vélstjóra lá síðan á sjóinn og lýsir Víkingur sjómannsferlinum með svofelldum orðum: „Ég hóf sjómannsferilinn á sæbjúgnabátnum Hannesi Andréssyni SH frá Grundarfirði sem gerður var út frá Fáskrúðsfirði. Í síðasta róðrinum á þeim báti var ég staðráðinn í að komast á alvöru skip og var ráðinn á Barða NK, frystitogara Síldarvinnslunnar. Fyrsti túrinn minn á Barða var makríltúr og var veitt með flottrolli. Síðan tóku við hefðbundnar togveiðar. Á Barða voru túrarnir fremur stuttir, frá tveimur vikum og upp í 24-30 daga mest. Síldarvinnslan festi kaup á frystitogaranum Blængi árið 2015 og í febrúar 2017 fórum við fyrsta túrinn á honum og þar hef ég verið síðan.“

Árið 2020 tók Víkingur við sem yfirvélstjóri um borð á Blængi sem fer langa túra en áhafnirnar eru tvær og skiptast á um að vera um borð. Túrarnir eru yfirleitt 25 – 28 dagar og upp í 35-40 daga en lengstu túrarnir hafa yfirleitt verið farnir í Barentshafið. Fyrsti túrinn í Barentshafið var farinn 2018 og var hann 40 dagar.

„Á skipi eins og Blængi skiptir túraskipulagið öllu. Þegar slíkt skipulag er gott veistu nákvæmlega hvenær þú ert á sjó og hvenær í landi. Þetta einfaldar allt skipulag á viðhaldi skipsins, sérstaklega þar sem eingöngu er stoppað í tvo daga á milli túra, einnig hjálpar þetta til við að auka jafnvægið milli vinnu og einkalífs. Blængur er ekkert unglamb, hann er 52 ára en á árinu 2000 var unnið að miklum endurbótum á skipinu af fyrri eiganda. Þá var það til dæmis lengt og vélarúmið endurnýjað að stærstum hluta. Það þarf að hyggja að mörgu um borð í svona vinnsluskipi og vélstjórarnir gegna mikilvægu hlutverki um borð. Þeir þurfa að hugsa um allan tækja- og vélbúnað í öllu skipinu, það er ekkert kallaður til iðnaðarmaður utan úr bæ þegar skipið er úti á sjó, við gerum allt sem við getum til að halda skipinu í rekstri. Þó Blængur sé gamall þá er hann mjög öflugur togari og gott skip. Verkefni okkar vélstjóranna um borð eru gríðarlega fjölbreytt og það er virkilega gefandi að glíma við þau öll.“ sagði Víkingur Trausti.