Iðnaðarmenn frá Síldarvinnslunni á gervigreindarnámskeiði. Ljósm. Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir

Fræðsluáætlun Síldarvinnslunnar var unnin af Austurbrú í samvinnu við starfsfólk fyrirtækisins. Austurbrú sér síðan um framkvæmd áætlunarinnar í samvinnu við starfsmannastjóra og aðra stjórnendur Síldarvinnslunnar. Við mótun áætlunarinnar kom fram ósk hjá nokkrum starfshópum um að boðið yrði upp á fræðslu um gervigreind. Dagana 12. – 14. maí var síðan boðið upp á gervigreindarnámskeið í Neskaupstað sem var vel sótt af starfsfólki skrifstofu, stjórnendum vinnslustöðva og iðnaðarmönnum. Kennari á námskeiðinu var Pétur Már Sigurðsson sem kemur frá fyrirtækinu Javelin AI. Javelin AI er íslenskt ráðgjafafyrirtæki sem sérhæfir sig í gervigreind og gagnavísindum og er markmið þess að efla íslensk fyrirtæki með nýjustu tækni á sviði gervigreindar og gera þeim kleift að ná forskoti á því sviði.

Námskeiðið sem haldið var snerist ekki um fræðin á bakvið gervigreindina heldur fjallaði það um hvernig mætti nota gervigreindina á skilvirkan hátt. Þátttakendur fengu til dæmis leiðsögn í að nota verkfæri á borð við ChatGPT í daglegum verkefnum eins og skjalagerð, upplýsingagjöf, ákvarðanatöku, stefnumótun, rekstri o. fl.

Þátttakendur í námskeiðinu létu afar vel af því. Almennt töldu þeir að fræðsla um eðli gervigreindar væri mikilvæg og á námskeiðinu hefði slík fræðsla verið veitt á skýran og skilmerkilegan hátt. Ýmsir töluðu um að mikilvægt væri einnig að fræðast um mögulega gagnsemi gervigreindarinnar og takmarkanir. Þá flutti kennarinn erindi um þróun gervigreindar og framtíðarmöguleika sem þátttakendum fannst mjög áhugavert. Víst er að þátttakendur í umræddu námskeiði eru fróðari en áður um þá möguleika sem felast í notkun gervigreindar og hvernig unnt er að notfæra sér hana við hin daglegu störf.