
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi eða 116 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði á mánudaginn. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði frétta af túrnum. „Við hófum veiðar við Hvalbaksgrunn en síðan var farið í karfaleit. Við byrjuðum á að fara á Punginn, síðan á Verkamannabankann og loks í Rósagarðinn. Því miður bar karfaleitin afar lítinn árangur og veður truflaði talsvert á meðan hún fór fram. Að leitinni lokinni var haldið á Þórbankann og þar var fínasta veiði. Fiskurinn sem þar fékkst var fallegur og án efa hentugur til vinnslu. Aflinn var mest þorskur en einnig var töluvert af ýsu. Það er varla annað hægt en að vera tiltölulega ánægður með þennan túr þó leitin að karfanum hefði mátt ganga betur,“ sagði Hjálmar Ólafur.