Barði NK kom til Neskaupstaðar á föstudagsmorgun með 1.850 tonn af kolmunna sem fengust í færeyskri lögsögu. Heimasíðan hafði samband við Þorkel Pétursson skipstjóra og spurði hann fyrst hvar hefði verið veitt. „Við vorum að veiðum beint austur af nyrsta odda Færeyja, þar úti í landgrunnskantinum. Við vorum einungis þrjá daga á miðunum í heldur rysjóttu veðri; veðrið var stundum gott en leiðinlegt inn á milli og reyndar hundleiðinlegt á landleiðinni. Það gekk ágætlega að fiska. Við tókum fimm hol og það var stutt dregið eða frá 5 og upp í 17 tíma. Aflinn var frá 180 tonnum og upp í 420 tonn. Það voru ekki mörg skip að veiðum þarna. Auk okkar voru það tveir Rússar og einn Færeyingur auk þess sem Aðalsteinn Jónsson var þarna þegar við komum og Jón Kjartansson kom í restina. Kolmunninn sem þarna fékkst virðist vera fínn, feitur og lítur vel út. Hann er ábyggilega gott hráefni fyrir fiskimjölsverksmiðjuna,“ segir Þorkell.
Nú er Barði kominn til Akureyrar þar sem skipið fer í slipp.
Hafþór Eiríksson, verksmiðjustjóri fiskimjölsverksmiðjunnar í Neskaupstað, staðfestir að kolmunninn sem Barði kom með hafi verið gott hráefni til vinnslu. „Þetta er úrvalshráefni sem mjög gott er að vinna og úr því fæst töluvert af lýsi. Fiskurinn virðist vera vel á sig kominn og fituprósentan var um 6%,“ segir Hafþór.