Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun með 118 tonn af fallegum fiski. Aflinn var mestmegnis þorskur eða tæplega 90 tonn en tæplega 30 tonn voru ýsa. Hjálmar Ólafur Bjarnason skipstjóri segir að veðrið í túrnum hafi verið “frekar ógeðslegt.” Þá segir hann einnig að allvíða hafi verið farið til að ná í aflann.” Við byrjuðum á Gula teppinu, síðan var haldið á Gerpisflak og í Héraðsflóann og endað á Tangaflakinu. Til að byrja með var þokkalegt kropp, einkum á næturnar, en síðan fengum við mjög gott skot á mánudaginn og fylltum skipið. Þetta góða skot gerði túrinn virkilega flottan. Veðrið er kapítuli út af fyrir sig því það var bræluskítur úr öllum áttum og það er frekar þreytandi,” segir Hjálmar Ólafur.
Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.