Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærmorgun að lokinni tæplega viku langri veiðiferð. Afli skipsins var 110 tonn, mest þorskur og ýsa. Skipstjóri í veiðiferðinni var Friðrik Ingason. Friðrik hefur verið stýrimaður á Gullver í tvö og hálft ár en þetta var hans fyrsti túr sem skipstjóri. Friðrik var spurður hvar hefði verið veitt. “Við byrjuðum í Berufjarðarálnum en þar var þá lítið að hafa. Síðan var dregið út Hvalbakshallið og farið norður á Glettinganesflak og síðan Digranesflak. Við vorum þarna að elta fréttir um góð aflabrögð en þegar við komum á staðinn var góðri veiði ávallt lokið. Við snerum loks aftur í Berufjarðarálinn og fengum þá góðan afla á einum og hálfum sólarhring. Túrinn byrjaði í leiðindaveðri en það gekk niður eftir rúmlega sólarhring og þá kom hið þokkalegasta veður. Við fengum síðan brælu á ný á landleiðinni,” segir Friðrik.