
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi eða um 115 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði á miðvikudaginn. Þórhallur Jónsson skipstjóri var sáttur með túrinn að flestu leyti. “Við vorum mest að veiðum í Berufjarðarálnum og í Hvalbakshallinu. Þar fékkst þessi fína ýsa og dálítið bland af öðru. Við tókum drjúgan tíma í að leita að ufsa og karfa alveg frá Papagrunni og vestur á Öræfagrunn með heldur litlum árangri. Mest allan túrinn var gott veður en þó var skælingur í einn sólarhring eða svo. Nú er sjómannadagshelgin framundan en haldið verður til veiða á ný á mánudaginn,” sagði Þórhallur.