Gullver NS. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í gærkvöldi úr síðasta túr þessa árs. Túrinn var stuttur, en skipið hélt til veiða á fimmtudagskvöld. Heimasíðan ræddi við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði fyrst út í aflabrögðin. “Það aflaðist bara þokkalega í þessum stutta túr. Aflinn var 85 tonn, mestmegnis ýsa. Við vorum aðallega á Skrúðsgrunni og Hvalbaksgrunni. Það var einnig farið suður á Stokksnesgrunn að leita að ufsa en það kom lítið út úr því. Veðrið var þokkalegt allan túrinn, fengum að vísu kaldaskít en það var ekkert alvarlegt. Nú er jólafrí framundan og auðvitað er það vel þegið. Það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en 2. janúar,” sagði Þórhallur.