Gullver NS að landa í Hafnarfirði síðastliðinn laugardag. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í Hafnarfirði síðstliðinn laugardag. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði frétta. “Við vorum í eina fjóra daga að veiðum og fengum aflann mest í kantinum vestan við Halann, á Menjunni svokallaðri. Aflinn var 96 tonn, mest þorskur, töluvert af karfa og síðan dálítið af ufsa. Þetta gekk bara nokkuð vel. Það var góður afli til að byrja með en síðan hægðist á. Við ætluðum að blanda þetta meira í restina en það reyndist þrautin þyngri. Veður var gott nánast allan tímann en það var þó bræluskítur alveg undir lokin. Við fórum út á laugardagskvöld strax eftir löndun og nú erum við að veiðum á Pínulitlabanka út af Reykjaneshrygg. Það er ljóst að við náum að hringa landið í þessu úthaldi en gert er ráð fyrir löndun í heimahöfn á Seyðisfirði á fimmtudag,” segir Hjálmar.