Gullver NS hefur landað fyrir sunnan að undanförnu. Ljósm. Þorgeir Baldursson

Gullver NS landaði í Hafnarfirði sl. miðvikudag og mun landa þar aftur í dag. Skipstjóri í fyrri túrnum var Hjálmar Ólafur Bjarnason en Þórhallur Jónsson í síðari túrnum.

Hjálmar sagði að í fyrri túrnum hefði verið lögð áhersla á ýsu- og karfaveiði. “Við reyndum fyrst við ýsu á Eldeyjarbankanum en þar var frekar dræmt. Þá var haldið á Melsekk til að ná í karfa og það gekk vel. Aftur var reynt við ýsu á Eldeyjarbanka í lok túrsins og það gekk mun skár en í fyrra sinnið. Túrinn var tveir og hálfur sólarhringur höfn í höfn og veðrið var ágætt,” sagði Hjálmar Ólafur.

Gullver mun landa í Hafnarfirði klukkan fjögur í dag . Skipið er með fullfermi eða 115 tonn og er aflinn mest ýsa og karfi. Þórhallur skipstjóri var sáttur við túrinn. ”Við byrjuðum á Selvogsbanka en fengum mest af ýsunni á Síðugrunni. Síðan var karfinn tekinn á Melsekk. Gert er ráð fyrir að halda til veiða á ný á miðnætti og landa næst fyrir austan fyrir páskahátíðina,” sagði Þórhallur.