Gullver landar syðra

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði í Hafnarfirði í gær. Afli skipsins var 102 tonn og var hann blandaður. Þriðjungur aflans var þorskur, annar þriðjungur karfi og sá þriðji ufsi. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir svo frá veiðiferðinni: ”Við hófum veiðar á Tánni á Selvogsbankanum en færðum okkur síðan á Eldeyjarbankann. Það var töluvert af skipum á Eldeyjarbankanum þegar við komum þangað og þar var góð þorskveiði en hún fjaraði síðan út. Aftir það fengum við helst karfa og svo var smá ufsanudd í lokin. Aldrei þessu vant var blíðuveður allan túrinn og menn fögnuðu því innilega. Haldið verður til veiða fljótlega að löndun lokinni og ég á von á að við förum á svipaðar slóðir og við vorum á,” sagði Þórhallur.