Gullver NS á leið á miðin. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi eða 115 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Þórhallur Jónsson skipstjóri var ánægður með veiðiferðina og ekki síst veðurfarið. „ Aflinn var blandaður, mest þorskur, en einnig ýsa, ufsi og karfi. Það var veitt allvíða. Mest vorum við í Berufjarðarálnum og Hvalbakshallinu en einnig í Lónsbugtinni, Lónsdýpinu og á Papagrunni þar til endað var á Gauraslóðinni. Töluvert var reynt við ufsa og karfa en það gekk heldur erfiðlega að ná þeim tegundum. Veiðiferðin tók sex sólarhringa höfn í höfn og það er engin ástæða til að vera ósáttur við veiðina. Við fengum eitt og eitt ágætis hol í túrnum,“ sagði Þórhallur.

Gullver hélt á ný til veiða í gærkvöldi.