Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í morgun með fullfermi af blönduðum afla. Í aflanum er mest af þorski en síðan kemur ufsi og ýmsar tegundir. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og lét hann vel af sér. “Þetta er nokkuð langur túr eða um sex dagar. Við byrjuðum á Breiðdalsgrunni og þar var hörkuþorskveiði. Síðan var farið af stað í leit að öðru en þorski. Við enduðum í Hornafjarðardýpinu og þar var ágætis kropp af ýmsum tegundum. Veður var misjafnt í í túrnum en það má alveg halda því fram að það hafi verið sæmilegt. Farið verður út á ný strax í kvöld en spáin fyrir næstu daga er ekki góð. Það má alltaf eiga von á leiðindaveðri á þessum árstíma,” sagði Hjálmar Ólafur.

Gullver NS landaði fullfermi á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason