Gullver NS kemur til hafnar á Seyðisfirði í dag. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til löndunar í heimahöfn á Seyðisfirði í dag. Afli skipsins er 100 tonn, 60 tonn af þorski og 40 tonn af gullkarfa. Heimasíðan heyrði í Hjálmari Ólafi Bjarnasyni skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við fórum út frá Grundarfirði á sunnudagskvöld og veiðarnar hófust norður af Nætursölunni þar sem reynt var við gullkarfa. Það gekk virkilega vel og við fengum þarna um 40 tonn á einum sólarhring eða svo. Síðan var siglt norður á Kögurgrunn og þar skyldi tekinn þorskur. Það var lítið hjá okkur í fyrsta holi en síðan brast á hörkuveiði. Þegar svona veiðist reynir mikið á þann mannskap sem gengur frá aflanum og það skiptir miklu máli að áhöfnin sé samhent. Álagið er gífurlegt og allir þurfa að hjálpast að og leggja sitt af mörkum. Við fengum þarna um 60 tonn af þorski á 18 tímum. Það verður að segjast að í þessari veiðiferð fékkst hörkuafli en það var einungis tvo sólarhringa verið að veiðum, restin af tímanum fór í siglingar.

Gert er ráð fyrir að Gullver haldi á ný til veiða á sunnudagskvöld,“ sagði Hjálmar Ólafur.