Landað úr Gullver NS á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar Bogason

Ísfisktogarinn Gullver NS kom til heimahafnar á Seyðisfirði í gær með um 120 tonna afla. Nú eru Gullversmenn komnir í páskafrí og heldur skipið ekki til veiða á ný fyrr en á annan í páskum. Þórhallur Jónsson skipstjóri sagði að víða hefði verið veitt í túrnum. “Við byrjuðum á að taka tvö hol á Eldeyjarbanka og síðan var togað á grunnunum austur með suðurströndinni en þar var lítið að hafa. Þegar komið var austur fyrir var togað á Fætinum, Breiðdalsgrunni og Hvalbakshalli og loks endað í Berufjarðarálnum. Veður var gott að einum sólarhring undanskildum. Við fengum gott af ufsa í restina og það má segja að ufsaaflinn hafi bjargað túrnum,” sagði Þórhallur.