Veiðar skipanna eru að hefjast á nýju ári. Ljósm. Björn Steinbekk

Veiðar eru að hefjast á nýbyrjuðu ári. Vestmannaeyjaskipin Vestmannaey VE og Bergur VE héldu til veiða í nótt. Í morgun hafði Bergur hafið veiðar á Pétursey og Vík en Vestmannaey var á leiðinni á Höfðann. Bergur fór í stutta veiðiferð á milli jóla og nýárs og landaði að henni lokinni daginn fyrir gamlársdag.

Frystitogarinn Blængur NK lætur úr höfn í nótt og mun sennilega hefja veiðar á austurmiðum. Mun þetta væntanlega verða 40 daga túr hjá Blængi. Gullver NS mun halda til veiða á morgun frá Seyðisfirði.

Uppsjávarskipin Barði NK, Beitir NK og Börkur NK halda til kolmunnaveiða í færeyskri lögsögu í nótt. Áhafnir uppsjávarskipanna munu án efa fylgjast grannt með loðnuleit sem væntanlega hefst fyrir eða um miðjan janúarmánuð.