Floti Síldarvinnslunnar í Norðfjarðarhöfn á sjómannadag. Ljósm. Guðlaugur Björn Birgisson

Skipin í Síldarvinnslusamstæðunni sem leggja stund á botnfiskveiðar eru að hefja veiðar að lokinni sjómannadagshelgi. Grétar Örn Sigfinnsson, rekstrarstjóri útgerðar Síldarvinnslunnar, sagði að frystitogarinn Blængur NK hefði haldið til veiða í gær og ísfisktogarinn Gullver myndi láta úr höfn á Seyðisfirði í dag.

Arnar Richardsson, rekstrarstjóri Bergs-Hugins í Eyjum, upplýsti að Vestmannaey VE hefði haldið til veiða í gær en Bergur VE yrði í slipp á Akureyri fram undir miðjan mánuð.

Kjartan Viðarsson, útgerðarstjóri Vísis í Grindavík, sagði að ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK hefði látið úr höfn í gær en línuskipin Sighvatur GK og Páll Jónsson GK myndu halda til veiða í dag og á morgun. Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK er hins vegar í landi vegna brælu. “Þetta er að potast í gang eftir vel heppnaða sjómannadagshelgi,” sagði Kjartan.

Uppsjávarskip Síldarvinnslunnar, Barði NK, Beitir NK og Börkur NK, eru í landi en munu halda til makrílveiða síðar í mánuðinum.