Í samfélagsskýrslu Síldarvinnslunnar, sem kom út fyrr á þessu ári, voru birt stutt viðtöl við nokkra starfsmenn fyrirtækisins og dótturfélaga. Nokkur þessara viðtala munu birtast hér á heimasíðunni og hér er eitt þeirra.

Aldís Stefánsdóttir

Aldís Stefánsdóttir er fædd á Reykhólum í Barðastrandasýslu og alin upp í Búðardal. Hún á hins vegar rætur austur á landi, en móðir hennar var Norðfirðingur og faðir hennar frá Vopnafirði. Aldís fluttist til Neskaupstaðar árið 1986 og hóf þá að starfa hjá Landsbankanum. Árið 1999 hóf hún síðan störf á skrifstofu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað. Aldís segir svo frá störfum sínum á skrifstofunni: „Ég hóf strax störf í almennu bókhaldi og það hefur ávallt verið drjúgur hluti minna starfa. Árið 2009 hóf ég að sinna sérstöku verkefni en það var að annast allt bókhald fyrir grænlenska útgerðarfélagið Polar Pelagic. Síldarvinnslan á 33% í þessu grænlenska félagi en það gerir út tvö uppsjávarveiðiskip, Polar Amaroq og Polar Ammassak. Flestir yfirmenn á skipunum eru íslenskir en stór hluti áhafnanna eru Grænlendingar. Það hefur verið lærdómsríkt og gott að eiga samskipti við grænlensku sjómennina og ég hef líka heimsótt Grænland og fengið að kynnast grænlensku samfélagi dálítið. Heimahöfn skipanna er Tasiilaq sem er um 2.000 manna bær á austurströnd Grænlands og þennan bæ hef ég heimsótt mér til mikillar ánægju. Segja má að eini vandinn við að starfa fyrir Polar Pelagic séu breytingar sem stundum eiga sér stað á grænlenskum lögum og reglum varðandi bókhald en ég hef góða menn til að fylgjast með slíkum breytingum. Nú hef ég starfað í ein 25 ár á skrifstofu Síldarvinnslunnar og mér hefur líkað það afar vel. Það hafa átt sér stað verulegar breytingar á þessum starfstíma mínum og ég er búinn að fara í gegnum allmargar uppfærslur á tölvukerfum. En þrátt fyrir allar breytingarnar er starfið í grundvallaratriðum það sama – bókhald er alltaf bókhald.“