Nú bíður fjöldi fólks eftir fréttum úr loðnuleiðangri sem nú er í gangi.  Grænlenska skipið Polar Amaroq fór til leitar á laugardag.  Árni Friðriksson fór frá Reykjavík á mánudag,  Aðalsteinn Jónsson fór frá Eskifirði á þriðjudag og þá héldu einnig Börkur NK og Margrét EA til leitar.  
 
Mikið er í húfi og því öllu tjaldað til, verðmæti loðnunnar hafa aukist mjög á undanförnum árum.  Hefur aukin áhersla á hrognavinnslu og frystingu til manneldis skilað mikilli verðmætasköpun miðað við það sem áður var. Þannig má reikna með að 180 þúsund tonna loðnukvóti myndi gefa einhverja 26 milljarða í útflutningstekjur.   Þetta eru miklir fjármunir sem munar virkilega um fyrir þjóðarbúið.  En ef loðnan skilar sér ekki er að sjálfsögðu tapið mest í þeim samfélögum þar sem loðnan er unnin og skipin gerð út.
 
Tekjur til starfsmanna af 180 þúsund tonna kvóta gætu numið rúmum 6 milljörðum.  Þar erum við að tala um sjómannslaun og laun verkafólks í landi.  Margfeldið af afleiddum störfum í þjónustu í kringum útgerðina eins og  netaverkstæði, vélaverkstæði og önnur þjónusta er ótalin.  Í þessum samfélögum skiptir loðna miklu máli og er stór hluti af árstekjum starfsfólks og skapar vinnu t.d. á nótaverkstæðum lungað úr árinu við yfirferð á loðnunótum, auk viðhaldsverkefna fyrir iðnaðarmenn.  Þarna eru Fjarðabyggð og Vestmannaeyjar stærstu löndunarstaðir fyrir loðnu og því mikið í húfi fyrir þessi byggðarlög.
 
Ef svo ólíklega vill til að það verði loðnubrestur annað árið í röð þá er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu mála.  Því eins og komið hefur fram þá eru loðnuafurðir verðmætar á mörgum mörkuðum og detti þær alveg út getur verið erfitt að endurheimta þá markaði þegar loðnan fer að veiðast á ný. Einnig ber að geta þess að loðnan skiptir umtalsverðu máli í rekstri margra fyrirtækja í Asíu.
 
Asíumarkaður er okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuhrogn og hrygnu sem er komin með ákveðna hrognafyllingu,  síðan hefur hængurinn verið frystur á Austur Evrópu.  Í Asíu hafa menn gjarnan haft góða birgðastöðu til að mæta sveiflum á framboði milli ára en nú er svo komið að þær birgðir eru að klárast.  Aldrei í sögunni hefur verið loðnubrestur tvö ár í röð og því er ástæða til að trúa því að fiskurinn muni á endanum skila sér í mælingum í ár.
 
Okkar verðmætasti markaður fyrir loðnuafurðir í Asíu er Japansmarkaður og sveiflast verð þar mjög í takt við framboð og eftirspurn hverju sinni. Nær öll loðna sem flutt er til Japans kemur frá Íslandi og Noregi. Nú er verið að leita að loðnunni við Ísland og fyrir liggur að enginn kvóti verður gefinn út í Barentshafi þannig að viðskiptavinir okkar í Asíu hafa miklar áhyggjur af stöðu mála og fylgjast grannt með. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá innflutning á loðnuafurðum til Japans eftir löndum:
 
  
Þegar myndin er skoðuð kemur í ljós að uppistaða innflutnings á loðnu til Japans kemur frá Íslandi eða 58% af magninu sl. 6 ár. Veiðin í Barentshafi hefur ekki verið mikil, þannig að stór hluti af loðnunni sem kemur frá Noregi er veiddur á Íslandsmiðum.
 
 
Á ofangreindri  mynd sést hvernig innflutningur á loðnuhrognum hefur verið sl. ár beint til Japans og hvernig verðin hafa hækkað á sama tíma og magn minnkar.  En þessi mynd sýnir að beinn innflutningur hefur minnkað því að hluta til hefur vinnslan færst t.d. til Kína, auk þess sem eftirspurn eftir loðnuhrognum hefur aukist í öðrum löndun Asíu og eins í Austur Evrópu.  Þegar mikið er veitt kaupa Japanir gjarnan meira á lægri verðum og geyma til jöfnunar á magni í upp- og niðursveiflum.
 
Af framansögðu er ljóst að mikið er í húfi, fiskurinn er brellinn og getur verið erfitt að ná utan um hann.  Loðnan er mikilvæg í fæðukeðjunni við Íslandsstrendur, hún flytur mikla orku inn í lífríkið þannig að nauðsynlegt er að afla vitneskju um atferli og göngumynstur með rannsóknum.  Eins þarf að kanna afrán hvala og annarra sjávardýra.  Fyrir liggur að fjölgun hvala síðastliðin 20 ár er búin að vera gríðarleg.
 
Tekin var upp ný aflaregla með breyttri aðferðafræði við að meta stofninn fyrir nokkrum árum.  Nauðsynlegt er að fara ofan í þessa reiknireglu og huga að því hvort tekin væri áhætta með stofninn þó gefinn væri út ákveðinn byrjunarkvóti. Þá myndi flotinn fara af stað og finna loðnuna og unnt yrði að sinna okkar mikilvægustu mörkuðum.  Í gegnum tíðina hefur oft verið örðugt að hitta á loðnugöngur og hefur flotinn þurft að hafa töluvert fyrir því að finna þær. Það segir okkur að þrjú til fjögur leitarskip geta auðveldlega siglt framhjá göngunum og orðið einskis vör. 
 
Allir sem starfa við loðnuútveg og –vinnslu verða að vera bjartsýnir og hafa fulla trú á að það náist að mæla loðnuna og gefa út kvóta svo hægt verði að draga björg í bú.  Menn voru svartsýnir 2017 en þá var sjómannaverkfall í upphafi árs, lítið mældist í janúarleiðangri og menn nánast búnir að afskrifa vertíð.  Í loðnuleiðangri dagana  3.-11.  febrúar fannst hins vegar loðna í töluverðu magni fyrir norðan land og úr varð góð vertíð.
Gunnþór B. Ingvason
 
Nánar af yfirstandandi loðnuleit:
 
Á meðfylgjandi mynd má sjá skipulag yfirstandandi  loðnuleitar eins og það leit út þegar haldið var af stað, síðan tekur skipulagið breytingum eftir því hvernig aðstæður eru.  Í leitinni taka þátt þrjú skip mönnuð rannsóknarmönnum frá Hafró, Árni Friðriksson, Aðalsteinn Jónsson og Polar Amaroq, síðan eru hjálparskipin Börkur og Margrét.   Uppleggið er að hjálparskipin taka grunninn og útkantinn til að stytta leggi mæliskipanna. Árið 2017 voru færri skip við leit en þá voru Norðmenn að veiðum og gátu veitt miklvægar upplýsingar.  Skipstjórar annarra skipa eru einnig duglegir að melda upplýsingar um loðnu sem þeir verða varir við og sem hægt er að skoða, þannig eru fréttir utan af Dohrnbanka frá grænlenskum skipum.
 
 
 
Hægt er að fylgjast með leitarskipunum. Meðfylgjandi mynd (hér fyrir neðan) er lifandi á síðunni skip.hafro.is.   Samstarf útgerðar og Hafrannsóknastofnunar í þessari vinnu er til fyrirmyndar enda kemur saman reynsla skipstjórannna og þekking fiskifræðinganna.   Á myndinni sjást lykkjur á leiðum skipanna en þar hafa skipin tekið tog til að ná í sýni af loðnunni.