
Línuskipið Páll Jónsson GK kom til löndunar í Grindavík á sunnudag. Aflinn var 135 tonn sem fengust í fjórum lögnum. Heimasíðan ræddi við Jónas Inga Sigurðsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. “Við tókum tvær lagnir á Kötlugrunni og síðan tvær austur í Meðallandsbugt. Að fá 135 tonn í fjórum lögnum er glæsilegt og varla hægt að biðja um meira. Þetta var líka stór fiskur sem kom á línuna. Meðalvigt þorsksins var yfir 8 kg. og mikið af þorskinum var um 12 kg. Meðalvigt ýsunnar var 3 kg. sem er einnig mjög gott. Við urðum varir við dálítið af loðnu í fiskinum þannig að einhver loðna er komin suður fyrir land. Menn voru orðnir býsna þreyttir á að handfjatla svona stóran fisk en áhöfnin stóð sig að sjálfsögðu vel eins og alltaf. Veðrið í túrnum var misjafnt. Fyrri tvo sólarhringana var það ágætt en síðan var kaldaskítur seinni tvo. Ég held að öll áhöfnin sé afar sátt við túrinn og það er varla annað hægt,” sagði Jónas Ingi.
Páll Jónsson hélt á ný til veiða í gærkvöldi.