
Afar góð veiði hefur verið á línuna hjá Vísisskipum. Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK landaði tvisvar í Grindavík sl. laugardag og Páll Jónsson GK landaði þar í gær. Síðan er Sighvatur GK að landa í dag. Heimasíðan ræddi við skipstjórana og spurði frétta af veiðinni.
Júlíus Magnús Sigurðsson, skipstjóri á Fjölni, sagði að aflinn hefði í reynd verið ævintýralega góður. “Við vorum búnir að vera lengi í landi vegna veðurs en loksins var unnt að róa öllum til gleði. Við lögðum línuna á bletti sem nefnist Varmalækur, en hann er út af Hafnarbergi um tíu sjómílur suður af Sandgerði. Aflinn var hreint ótrúlegur eða rúmlega 29 tonn af óslægðum fiski. Þessi afli gerði það að verkum að við þurftum að tvílanda á laugardaginn. Við drógum fyrst helming línunnar og þá var báturinn orðinn fullur þannig að við þurftum að landa. Síðan var haldið beint út, seinni helmingurinn dreginn og báturinn fylltur á ný. Þetta er mesti afli sem ég hef upplifað og er í reynd alveg ótrúlegur. Á línunni eru 17.000 krókar og mér sýnist að við höfum fengið þarna 1,8 kg á hvern krók. Fiskurinn sem þarna fékkst var stórþorskur, ekta vertíðarfiskur. Þegar búið var að slægja hann reyndist meðalþyngdin vera sjö kíló. Já, þessi dagur verður eftirminnilegur. Vissulega var róðurinn erfiður en mikið ósköp var þetta skemmtilegt,” sagði Júlíus Magnús.
Benedikt Jónsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að aflinn hjá þeim hefði verið virkilega góður, en vikan hafi verið býsna úldin veðurfarslega. “Við byrjuðum á að leggja línuna í Grindavíkurdýpinu en þar reyndist heldur lítið að hafa. Veðurspáin var ískyggileg og því færðum við okkur í Garðsjó og lögðum þar. Afraksturinn þar var einnig heldur lítill. Því næst var haldið á Jökuldýpisbotn. Veðrið var skelfilegt og ölduhæðin 10 – 11 metrar en þarna fékkst góður þorskur. Loks færðum við okkur vestur á Jökulbanka og þar fengum við skaplegt veður í heilan sólarhring. Þarna fiskaðist vel í tveimur og hálfri lögn og um var að ræða stóran og fallegan þorsk sem var fullur af hrognum og lifur. Aflinn í túrnum var hátt í 130 tonn og í veiðiferðum eins og þessari er mikilvægt að vera á góðu skipi og með frábæra áhöfn. Það reynir mikið á menn í þessum helvítis látum en staðreyndin er sú að allir koma í land með bros á vör,” sagði Benedikt.
Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson, skipstjóri á Sighvati, var mjög ánægður með túrinn. “Við komum til löndunar í Grindavík í morgun með fullan bát eða rúmlega 120 tonn. Við hófum túrinn við Birgisvíkurpoll norður í Húnaflóa og vorum þar fyrstu tvo dagana í kolvitlausu veðri. Aflinn var engu að síður þokkalegur eða 15 – 17 tonn hvorn dag af blönduðum fiski. Þá var haldið dýpra í Húnaflóann og lagt í Hryllingsbúðinni. Þar fengum við tvo 30 tonna daga, mest af þorski en einnig ýsu og gramsi. Loks var túrinn kláraður á Strandagrunni og þar fékkst blandaður þorskur. Þetta var mjög góður túr hvað afla áhrærir – fimm lagnir og svo siglt heim til löndunar. Sannleikurinn er sá að það er ævintýralegur afli á línuna núna,” sagði Aðalsteinn Rúnar.
Páll Jónsson hélt til veiða á ný í gærkvöldi og Sighvatur mun láta úr höfn á morgun.