Athafnasvæði Síldarvinnslunnar við Norðfjarðarhöfn

Í gærkvöldi var haldinn íbúafundur vegna ofanflóðahættu í Neskaupstað. Á fundinum var meðal annars fjallað um endurskoðun á snjóflóðaeftirliti og rýmingakortum og greint frá þeirri vinnu sem fram hefur farið að undanförnu vegna ofanflóðahættu. Á meðal frummælenda á fundinum var Páll Freysteinsson öryggisstjóri Síldarvinnslunnar. Gerði Páll grein fyrir viðbragðsáætlun fyrirtækisins vegna snjóflóðahættu en áætlunin er virkjuð í samvinnu við almannavarnir. Páll lagði áherslu á eftirfarandi þætti í lok erindis síns:

  • Öryggi starfsfólks er ávallt í fyrsta sæti hjá fyrirtækinu
  • Miklir rekstrarlegir og fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi að ekki verði framleiðslurof á krítískum tíma eins og á loðnuvertíð og að framleiðslubúnaður verði ekki fyrir skemmdum. Stöðva þarf framleiðslu á öruggan hátt ef til þess kemur
  • Síldarvinnslan telur afar brýnt að það verði leitað leiða með vörnum að tryggja örugga akstursleið um snjóflóðahættusvæði til og frá athafnasvæði bæjarins
  • Tryggja þyrfti með vörnum krítíska innviði eins og aðveitustöð Landsnets sem er á athafnasvæðinu – öll raforka á svæðið fer í gegnum stöðina
  • Síldarvinnslan býður upp á þátttöku og samstarf við þessi verkefni