
Ísfisktogararnir í Síldarvinnslusamstæðunni hafa verið á góðu róli í vikunni og hafa þeir allir landað ágætum afla. Hér á eftir verður gerð grein fyrir gangi veiða hjá þeim.
Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergey VE, sagði að landað hefði verið tvisvar í vikunni og í bæði skiptin í Neskaupstað. “Við lönduðum fullfermi á mánudaginn og síðan aftur um 20 tonnum í gær en þá var komið til hafnar vegna veðurs. Í fyrri túrnum vorum við um fimm sólarhringa á miðunum og var allvíða veitt. Við byrjuðum á Tangaflaki og Gerpisflakio g síðan var haldið á Skrúðsgrunn og Hvalbaksgrunn í leit að ýsu. Þá var stefnan tekin á Papagrunn í leit að ufsa en sú för skilaði ekki miklum árangri. Þá var haldið í Hvalbakshallið og þaðan á Gerpisflak. Túrinn var síðan kláraður á Tangaflakinu. Þetta var í reyndinni rag mestan hluta túrsins og við náðum að fylla skipið. Strax að löndun lokinni var haldið til veiða á ný og farið á Gletting. Þar fékkst þorskur í skíta helvítis brælu og á endanum var tekin ákvörðun um að landa þeim afla sem kominn var. Við löndðum í gær og það verður haldið á ný til veiða í dag,” sagði Jón.
Einar Ólafur Ágústsson, skipstjóri á Jóhönnu Gísladóttur GK, var mjög sáttur með veiðiferðina en landað var fullfermi í Hafnarfirði á þriðjudag. ”Þetta var stuttur túr og fiskiríið var gott. Aflinn var mest karfi og ýsa. Karfinn fékkst í Víkurálnum og ýsan á Búrbanka. Ég held að menn séu bara sáttir við túrinn,” sagði Einar Ólafur.
Birgir þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey VE, var ánægður með veiðiferðina en landað var fullfermi í Grindavík í gær. ”Það tók okkur þrjá sólarhringa að fá í hann og aflinn var mjög blandaður. Þetta voru í reynd allar sortir, en mest af þorski og ufsa. Aflann fengum við á Höfðanum og í Breiðamerkurdýpinu. Að löndun lokinni í Grindavík var haldið til Eyja og síðan haldið þaðan austur eftir til veiða,” sagði Birgir Þór.
Þórhallur Jónsson, skipstjóri á Gullver, upplýsti að landað hefði verið rúmlega 90 tonnum á Seyðisfirði í gær. ”Þetta var langmest þorskur og ýsa. Við fengum aflann að mestu á Gerpisflaki en tekið var eitt hol á Tangaflaki áður en haldið var í land. Við keyrðum að vísu suður á Papagrunn í túrnum vegna þess að fréttir bárust af ufsaveiði þar. Þegar þangað var komið var ufsinn horfinn og því var haldið á Gerpisflak á ný. Veður var ágætt þar til undir lok túrsins en þá skall á sannkallað skítaveður. Haldið verður á ný til veiða í dag,” sagði Þórhallur.