Í desember sl. fór fram úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar og var það í sjöunda sinn sem slík úttekt fer fram hjá fyrirtækinu. Úttektin í ár náði einnig til Bergs – Hugins í Vestmannaeyjum. Það var vottunarfyrirtækið BSI sem annaðist úttektina. Jafnlaunakerfið á að tryggja að launamál fyrirtækisins séu í samræmi við jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012 en samkvæmt staðlinum er fyrirtækjum skylt að launum sé háttað samkvæmt lögum um jafnan rétt kynjanna. Úttekt á jafnlaunakerfi Síldarvinnslunnar fór í fyrsta sinn fram árið 2018 og hefur síðan verið framkvæmd árlega.

Fram kom í úttektinni, sem framkvæmd var í nýliðnum desember fyrir árið 2024, að óútskýrður launamunur innan fyrirtækisins er 0,68% konum í hag en það var fyrirtækið Intenta ehf. sem annaðist tölfræðilega greiningu á laununum. Hákon Ernuson, starfsmannastjóri Síldarvinnslunnar, er mjög sáttur við niðurstöðu úttektarinnar. “Launasetning á eingöngu að byggjast á málefnalegum forsendum samkvæmt starfsmanna- og jafnréttisstefnu Síldarvinnslunnar og það er ávallt mikið gleðiefni að fá það staðfest að svo sé í raun. Það liggur skýrt fyrir á grundvelli úttektarinnar að kynbundinn launamunur er ekki til staðar og jafnréttisstefnu er fylgt. Rétt er að taka fram að launakerfi sjómanna gerir það að verkum að þeir eru undanskildir í jafnlaunaúttektunum,” sagði Hákon.