
Ísfisktogarinn Gullver NS landaði fullfermi eða 117 tonnum í heimahöfn á Seyðisfirði í gær. Aflinn var mest þorskur og ýsa. Heimasíðan ræddi við Hjálmar Ólaf Bjarnason skipstjóra og spurði frétta. “Þessi túr var tíðindalítill og frekar þægilegur. Veiðin var jöfn og þægileg. Við byrjuðum að veiða við Tólf tonna pyttinn sem er við Litla dýpið en lengst af vorum við á Hvalbaksgrunni og Breiðdalsgrunni. Þetta gekk bara býsna vel og við vorum fjóra daga að veiðum. Veðrið sýndi á sér ýmsar hliðar á meðan við vorum í túrnum. Í upphafi var kolvitlaust veður en undir lokin var komin algjör blíða. Það verður haldið til veiða á ný fljótlega eftir að löndun lýkur,” sagði Hjálmar Ólafur.