Jóhanna Gísladóttir GK heldur til veiða. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK landaði fullfermi á Grundarfirði í gær. Aflinn var að mestu þorskur. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri segir að víða hafi verið farið í túrnum. “Við byrjuðum við Eldeyna og tókum þar tvö hol en þar var lítið að hafa. Þá var farið í Jökuldýpisbotn og þar fékkst dálítið af karfa. Síðan var haldið í Víkurálinn og þar fengum við einkum þorsk. Við vorum í einn og hálfan sólarhring í Víkurálnum. Það var semsagt mikið siglt í þessum túr. Þetta eru heilmiklar vegalengdir á milli umræddra miða. Fiskurinn sem fékkst var ágætur og auðvitað var einstök rjómablíða allan túrinn. Þetta var fyrsti túrinn eftir slipp en skipið var í rúma viku í slipp í Reykjavík. Það var haldið til veiða strax eftir löndun og nú erum við að athuga með ufsa en það gengur býsna rólega. Ég veit bara ekki hvar í ósköpunum ufsinn heldur sig, það er mikið leitað að honum með heldur litlum árangri,” sagði Einar Ólafur.