
Jóhanna Gísladóttir GK, togari Vísis, hefur landað tvisvar í heimahöfn í Grindavík að undanförnu með skömmu millibili. Togarinn landaði fullfermi á laugardag og aftur í gær. Smári Rúnar Hjálmtýsson var skipstjóri í fyrri túrnum og segir hann að túrinn hafi byrjað rólega en endað vel. “Við lönduðum á Skagaströnd og héldum til veiða þaðan. Það var byrjað út af Vestfjörðum, í grunnkantinum út af Patreksfirði. Þar var aflinn í lagi til að byrja með en minnkaði síðan. Við færðum okkur og reyndum út af Snæfellsnesi en þar var ekkert að hafa. Þá var haldið á Eldeyjarbankann og þar var þokkalegasti afli, góður fiskur – þorskur og karfi. Þegar komið var á Eldeyjarbankann var komið blíðuveður og mikið voru menn fegnir að vera lausir við bræluskítinn sem ríkt hefur,” sagði Smári Rúnar.
Einar Ólafur Ágústsson var skipstjóri í síðari túrnum og var hann ánægður með hann. “Við héldum beint á Eldeyjarbankann og fylltum skipið á tæpum tveimur sólarhringum. Þarna fékkst þorskur og karfi. Þetta var stuttur túr og það var veitt í algerri blíðu. Við munum halda til veiða strax að löndun lokinni,” sagði Einar.