Jóhanna Gísladóttir GK. Ljósm. Jón Steinar Sæmundsson

Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK mun landa í dag á Grundarfirði. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri segir að fisk hafi vantað í vinnsluna í Grindavík og þess vegna landi þeir eftir einungis einn og hálfan sólarhring að veiðum. ”Við erum kallaðir inn til löndunar því það þarf að sjálfsögðu að halda vinnslunum gangandi. Við vorum að veiðum í góðu veðri vestur í kanti og uppi á Barðagrunni og það gekk þokkalega. Aflinn er um 35 tonn, mest þorskur. Það verður haldið til veiða á ný strax að löndun lokinni og ég reikna með að halda aftur á svipaðar slóðir,” sagði Einar Ólafur.